Alþjóðavika á Akrasel

Vikuna 19. - 23. september var Alþjóðavika á Akrasel. Á Bergi fór skemmtileg vinna í gang og mun hún halda áfram næstu vikurnar 

Í tilefni af alþjóðaviku unnu krakkarnir verkið ,,Heimurinn og ég“

Á Bergi tengjumst við níu fánum og má segja að við séum nokkuð alþjóðleg deild.

Við höfum tengingar við:                                                         

  • Danmörk                  
  • Færeyjar
  • Írak
  • Ísland
  • Kúrdistan
  • Noreg
  • Pólland
  • Ungverjaland
  • Þýskaland

Krakkarnir eru að læra að þekkja fánana við þessi lönd og hvar í heiminum þau eru. Þau gerðu í sameiningu heiminn sem búin var til úr bylgjupappír og límdu afklippur á heiminn í bláum, brúnum og hvítum blöðum eftir fyrirmælum kennara. Fánar landanna okkar voru svo límdir á heiminn. Í samveru fórum við svo yfir tvo þætti úr barnasáttmálanum: Að allir eiga sér nafn og ríkisfang (sem við útskýrðum sem fána eða land) og að við getum átt mismunandi tungumál en samt verið vinir. Þessi vinna er alls ekki búin því við eigum eftir að tengja þetta verkefni við önnur verkefni í vetur og tengja fleiri þætti barnasáttmálans við verkefnið.

  

Við höfum verið svo heppin að hafa áhugasama foreldra sem hafa komið með búninga frá Kúrdistan og sendu okkur að auki slóð af mjög vinsælu lagi sem við leyfðum krökkunum að heyra. Ef það leynast fleiri foreldrar í hópnum sem luma á einhverju skemmtilegu í tengslum við þetta verkefni að þá væri gaman að heyra frá ykkur.

Við höfum fengið til liðs við okkur foreldra og kennara sem ætla að lesa fyrir okkur bækur eða sögur á þessum tungumálum og hafa krakkarnir hlustað á Gullbrá og birnirnir þrír á íslensku, þýsku og norsku. Hægt og rólega munu börnin fá að heyra öll tungumál sem tengjast deildinni.