Kæru börn og foreldrar
Við í Akraseli bjóðum ykkur hjartanlega velkomin í leikskólann.
Við vonumst til að eiga í vændum ánægjuleg samskipti og samvinnu þar sem markmiðið er að allir fái að njóta sín og eiga hér ánægjulegar stundir.

Leikskólinn Akrasel tók til starfa í ágúst 2008. Leikskólinn er 6 deilda og fjöldi barna um 150 talsins. Deildarheiti eru tekin úr náttúrunni með vísun í nafnið okkar Akrasel. Akrasels nafnið er þjált, gamalt og gott. Í Víðigerði stóð leikskóli sem bar þetta nafn en honum var lokað þegar Teigasel tók til starfa árið 1998. Okkur finnst nafnið vel við hæfi þar sem það vísar í Akrafjallið okkar og akurinn. Segja má að við séum með óplægðan akur, þar sem börnin dvelja hjá okkur á sínum fyrstu mótunar árum.

Starfsgrundvöllur Leikskólastarfið byggist á lögum um leikskóla, Aðalnámskrá leikskóla sem er lögfest námskrá allra leikskóla og Skólanámskrá Akrasels (er í vinnslu). Leikskóli er uppeldis- og menntastofnun þar sem börn þroskast og læra í gegnum leik.


Meginmarkmið með uppeldi í leikskóla er samkvæmt lögum:

  • Að búa börnunum örugg leikskilyrði og hollt uppeldisumhverfi
  • Að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara
  • Að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar
  • Að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna
  • Að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun
  • Að rækta tjáningar og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

Börnin eru að læra og æfa sig allan daginn. Við viljum leggja áherslu á virðingu, nálægð, hlýju og umhyggju sem hluta af uppeldisstarfinu.

Markmið Akrasels eru:

Að barnið:
  • tileinki sér þá hæfni sem það krefst að takast á við sjálfan sig og lífið í samskiptum við aðra
  • læri að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs
  • beri virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu
  • öðlist hæfni í að tjá sig og afla sér þekkingar


© 2016 - 2020 Karellen